Landsliðskonan Herborg Rut spilar með Sparta Warriors

Eftir

Hokkí er líka bara ógeðslega töff íþrótt og maður þarf að vera nagli ef að maður vill halda áfram.

Herborg Rut Geirsdóttir hefur meira og minna maríneruð í íshokkí frá því hún var krakki á Akureyri. Leið hennar, frá því að vera áhugasamur hokkíkrakki á Akureyri, yfir í landsliðið og síðan í krefjandi fyrstu deild í Noregi, er um margt forvitnileg og skemmtileg. Hockey.is kastaði boltum upp í loft og Herborg greip þá alla með bros á vör og gott betur.

„Ég hef búið í Fredrikstad í næstum því sex ár. Foreldrar mínir fengu góðar vinnur hérna og ég fylgdi með. Það er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Mér líður vel hérna,“ segir Herborg mér. En þótt töluverð líkindi megi finna með hversdagslífi Norðmanna og Íslendinga þá er vænn stigsmunur á löndunum tveimur þegar kemur að hokkíiðkun ungmenna og vitundinni í kring um íþróttina og bæjarliðin. Hún segir frá því hvernig fleiri dyr opnist íþróttafólki eins og henni í Noregi. „Fleiri lið, leikir, mót og miklu fleiri stelpur að spila. Íshokkí er líka miklu stærri íþrótt hérna í Noregi og Östfoldsýsla er sérlega gíruð inn á sportið.“
Hún bætir við að í Noregi séu a.m.k. 47 skautahallir í stöðugri notkun og að á veturna leggi fólk metnað í að halda við útisvellum. Hún segir marga Norðmenn skauta til dægrastyttingar. „Oft er leik- og grunnskólum boðið í skautahallirnar til að prófa að skauta. Þar sem ég bý er líka haldið eitt mót fyrir gaggó (8. til 10. bekk) þar sem skólar keppa á móti hvor öðrum.“
Hún segir að búsetuval fjölskyldunnar hafi m.a. ráðist af því hversu góðir möguleikarnir væru fyrir Herborgu til æfinga. „Okkur langaði að búa nálægt góðri hokkíhöll með kvennaliði. Ég er að spila í Sarpsborg sem er 15-20 mínútur í burtu. Þangað er einfalt að komast.“ Hún bætir við að í Fredrikstad sé kvennalið sömuleiðis en það sé skipað töluvert yngri stelpum. Hún segir að það sé ekki jafn vel haldið utan um kvennaliðin í heimabænum og nágrannabænum Sarpsborg. En það er auðséð að tækifærin til að bæta sig og ná lengra í íshokkí er betri í Noregi.

 

Herborg Rut byrjaði ung.

Íþróttafjölskylda á Akureyri og Sarah Smiley heimsækir grunnskóla

Varðandi upphaf íþróttalífs hennar segist hún alltaf hafa elskað íþróttir. Hún æfði knattspyrnu, fimleika, karate, handbolta, frjálsar og stundaði hestamennsku. Sannkallaður íþróttahaus! En hokkíið hafi komist dýpst inn hjá henni og haldið. Þegar hún var fimm eða sex ára komst hún á skautabragðið en á þeim tíma var Þorbjörg Eva Geirsdóttir, systir hennar, og Geir Borgar Geirsson, faðir hennar, bæði í íshokkí á Akureyri. „Pabbi byrjaði þegar hann var lítill strákur af þvi hann bjó í innbænum á Akureyri. Systir mín byrjaði þegar Sarah Smiley heimsótti skólann hennar og bauð stelpum að prófa hokkí með sér.“ Herborg lítur upp til Söru og segir það mikið til henni að þakka að kvennahokkí á Akureyri náði þeim hæðum sem það er í. Kvennalið SA drottna á Íslandi og hafa lengi gert. Sara Smiley er ennþá spilandi þjálfari fyrir norðan.

En hvað skyldi það hafa verið sem fékk Herborgu til að snúa sér alfarið að íshokkíinu, umfram allar hinar íþróttirnar sem hún var líka góð í? Hún segist hafa áttað sig á því að hún nyti sín best sem hluti af liði. Hún elskar að vinna og þá sérstaklega að geta deilt því með liðsfélögum sínum. En það er meira. „Það er bara eitthvað svo gott að koma inn í köldu höllina og byrja að klæða sig í skautana.“ Að hennar sögn ólst hún upp í skautahöllinni á Akureyri. „Það er svo mikilvægt að líða vel og vita að sín íþrótt passar sér best ef maður vill ná langt,“ heldur hún áfram. „Það sem mér finnst líka svo æðislegt með hokkí er að ég hef leyfi til að vera glöð og reið og nota tilfinningar mínar í leiknum.“ Hún segir einnig að það að vera í liði geri sigrana enn sætari, þ.e. að geta deilt honum með liðsfélögum. Hún klykkir svo út og segir, „hokkí er líka bara ógeðslega töff íþrótt og maður þarf að vera nagli ef að maður vill halda áfram.“

 

Herborg gerir mótherja lífið leitt.

Stolt landsliðskona

Herborg Rut er landsliðskona. Sæti hennar í liðinu var ekki gefið. Þess vegna ætlaði hún sér að komast inn. „Ég var búin að ákveða að reyna að komast í landsliðið í fyrra. Þannig að ég fór á camp á Akureyri þar sem ég hitti þjálfarann í fyrsta skipti og fékk að spila með stelpunum.“ Stelpurnar á Íslandi spila allt öðruvísi en þær í Noregi, að hennar sögn. Það muni því taka hana einhverja stund að venjast leikstíl landsliðsins. Stelpurnar „heima“ þekki leik hvor annarrar betur en Herborg þekkir þeirra leik og þær hennar. Hún segir þetta vissa áskorun en „mér finnst geggjað að fá að spila með þeim.“
Þegar hún sá svo lista með nöfnum þeirra sem valdar voru þá öskraði hún af gleði. „Ég var svo spennt að fá að spila fyrir hönd lands míns og með gömlu vinkonum mínum. Nýi listinn fyrir þetta ár kom nýverið og ég varð ótrúlega glöð að sjá að ég fæ að upplifa heimsmeistaramót með liðinu aftur!“ Hún vill meina að nýi landsliðsþjálfarinn, Bandaríska landsliðskonan Jenny Potter (sem var atvinnumaður í Boston Blades og Minnesota Whitecaps) sé besti skautari sem hún hafi séð. „Hún er ótrúleg á svellinu! Ég trúi að hún mun hjálpa liðinu mikið! Svo er bara að ná gullinu á Spáni i mars!“ segir Herborg, brött að vanda.

Á sama tíma, í Noregi

Sparta Warriors, liðið hennar Herborgar, spilar í efstu deild Noregs sem nefnd er Elite Serian. Hún segir lið sitt neðarlega á stigatöflunni um þessar. En liðið er ungt og framtíðin björt. „Ég var oftast á bekknum fyrstu tímabilin. Ég var að spila með eldri stelpum og margar höfðu verið í norska landsliðinu, með góða reynslu.“ Hún nýtti þennan tíma vel til að læra af reyndari leikmönnum. Hún segir þolinmæðina, dugnaðinn og þrjóskuna hafa reynst henni vel því ístími hennar með liðinu jókst og jókst næstu tvö tímabil. „Ég notaði hverja einustu skiptingu til að sýna að ég ætti skilið að vera með og lagði allt í sölurnar. Það endaði með því að ég núna er kapteinn og fæ mikinn spilatíma.“
Ennfremur segir hún önnur lið vanmeta Sparta Warriors og það helli bara olíu á eld hennar. Hún rifjar upp minnistæðan leik. „Við spiluðum á móti Hasle Løren, lið frá Osló. Flest slagsmál og rifrildi koma á móti þessu liði. Þær voru algjörlega tilbúnar að fá þrjú stig fyrir leikinn og bjuggust ekkert við að þurfa reyna mikið á sig. Ég sagði stelpunum, áður en við tókum fyrsta droppið, að hörð vinna trompar hæfileika (hljómar betur á norsku!). Við börðust hverja einustu skiptingu líkt og hún væri okkar seinasta og unnum leikinn. Ég sá að stelpurnar frá Osló hentu frá sér kylfum og hjálmum í ísinn, og helmingurinn af liðinu var grátandi. Rosalega skemmtilegur leikur.“ Það vantar ekki andann hjá okkar manneskju.

Fagnar marki.

Fyrirmyndir

Þegar hér er komið við sögu liggur beinast við að fræðast um fyrirmyndir hennar á ísnum. Hún er fljót að nefna systur sína, hana Þorbjörgu Evu. Þær spila saman í Sparta og landsliðinu, sem hún segir vera geðveikt. „Ég er svo þakklát fyrir að hún var alltaf að styðja mig þegar ég fékk að spila.“ Sarah Smiley er aftur nefnd sem áhrifavaldur. „Hef líka lengi fylgst með Maria Rooth. Spilaði lengi fyrir sænska landsliðið og er alveg ótrúleg á ísnum. Hef oft farið í hokkí skólann hennar sem er í Halmstad, Svíþjóð.“ Og svo kom það sem ritari hockey.is var að vona… Herborg, eins og svo margir Norðmenn, fylgist með og lítur upp til Mats Zuccarello sem spilar fyrir New York Rangers í NHL deildinni. „Ég bara elska hvernig hann spilar og finnst ótrúlegt að hann kom sér svona langt með því að æfa þangað til hann náði toppnum.“
En aðalfyrirmyndin og ein helsta ástæða þess að Herborg stundar íshokkí af svona miklu kappi er Marte Carlsson, þjálfari hennar og landsliðskona. Hún er að sögn atkvæðamest norskra hokkíkvenna og spilaði með Sparta. Herborg var svo lánsöm að fá að spila aðeins með henni. „Ég vildi að ég hefði fæðst á svipuðum tíma og hún og fengi tækifæri til að spila með henni lengur. Hún er alveg ótrúleg. Hún gerir allt fyrir liðið okkar og hefur kennt mér það mesta sem ég kann í dag. Bæði sem spilari á ísnum og sem fyrirliði og liðsfélagi.“

Þegar ég segjum skilið við Herborgu þá segir hún mér að hún sé að æfa á fullu með Sparta Warriors. Aukinheldur æfir hún með strákaunglingaliði bæjarins til að koma sér í enn betra form fyrir heimsmeistaramótið. Hún æfi nú á degi hverjum. „Er að fara að spila seinasta deildarleikinn á morgun gegn Hasle Løren, frá Osló. Stefni á að við vinnum hann.“

Lestu þetta líka

Nýjar fréttir